Fótbolti

Stuðnings­menn PSG bauluðu á Mbappé í síðasta heimaleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kylian Mbappé og félagar í Paris Saint-Germain fengu franska meistarabikarinn afhentan eftir tapið fyrir Toulouse í gær.
Kylian Mbappé og félagar í Paris Saint-Germain fengu franska meistarabikarinn afhentan eftir tapið fyrir Toulouse í gær. getty/Franco Arland

Kylian Mbappé á væntanlega ekkert alltof góðar minningar frá síðasta heimaleik sínum með Paris Saint-Germain.

Frönsku meistararnir tóku á móti Toulouse í gær og töpuðu, 1-3. Mbappé kom PSG yfir á 8. mínútu en Toulouse skoraði næstu þrjú mörk og tryggði sér sigurinn.

Á föstudaginn tilkynnti Mbappé það formlega sem allir vissu; að hann myndi yfirgefa PSG þegar samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Mbappé verður því aðeins leikmaður PSG í nokkrar vikur í viðbót. Og í gær lék hann sinn síðasta leik fyrir liðið á Parc des Princes.

Þrátt fyrir að hafa unnið sex meistaratitla með PSG og vera markahæsti leikmaður í sögu félagsins bauluðu stuðningsmenn þess á Mbappé þegar nafn hans var lesið upp fyrir leikinn gegn Toulouse.

Síðustu dagar hafa ekki verið góðir fyrir PSG en á þriðjudaginn í síðustu viku tapaði liðið fyrir Borussia Dortmund, 0-1, í seinni leiknum í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Það þýðir að Mbappé yfirgefur PSG án þess að hafa unnið Meistaradeildina með liðinu. PSG tapaði einvíginu gegn Dortmund, 2-0 samanlagt. Mbappé skoraði átta mörk í Meistaradeildinni í vetur en var ekki á skotskónum gegn Dortmund.

PSG er löngu búið að tryggja sér franska meistaratitilinn og fékk bikarinn afhentan eftir leikinn gegn Toulouse. Mbappé er langmarkahæstur í frönsku úrvalsdeildinni með 27 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×